...en Guð býr í Djúpavatni, Kolbeinn! - Neeejjj-sko!
Yndislegir angar og sporðar allra landa, þá er henni lokið Kolbeinsferð 2005 þar sem allt var fullkomið - eða svo gott sem, Kolbeins Hjartar var nefnilega sárt saknað en á meðan að veiðiferð stóð húkti Kolbeinn Hjörtur kjökrandi við fúl og menguð Amsterdammssíki og reyndi að fanga herpessjúka marhnúta frekar en ekki neitt.
Kolbeinar (og gesturinn Orri) lögðu í hann í stórkostlegu veðri að kvöldi þriðjudagsins 19. júlí, drekkhlóðu japanskan bílskrjóð og áðu aðeins til þess að grípa einn ródara með frönskum og kóki og öllu tilheyrandi á leiðinni út úr bænum. Annars var haldið um Þrengslin og eftir malarvegum Selvogs þar til komið var á fyrri veiðistað Kolbeins: Hlíðarvatn í Selvogi. Herptist þá allt hold Kolbeina sem ekki voru lengi að rífa upp stangir sínar, svo og frisbídisk - að Kolbeini Aðalsteini undanskildum sem strax réðst í tvísýna skák við yfirvöld í Vatikaninu. Það finnst Kolbeini Aðalsteini gaman. Nóg um það.
Að gamalli venju drukku Kolbeinar gamla manninum skál í upphafi ferðar með því að láta Brennsa frænda ganga á milli og fylla tappann - um það bil tvo, þrjá umganga. Þar með var hiti kominn í hópinn, stangir voru settar saman og haldið niður að vatni og veiðilendur kannaðar. Kolbeinn Sölvi ,,sá hann vaka" ótt og títt en öðrum veiðimönnum var mestmegnis ómögulegt að sameinast honum í þessari ofursjón. En þess verður vissulega að geta að Kolbeinn Sölvi ber gleraugu sem hlaðinn eru miklum plús þannig að oft sér hann ýmislegt sem að aðrir koma ekki auga á.
Þrátt fyrir nokkur góð köst varð enginn Kolbeina svo mikið sem var þannig að lokum sneru drengirnir hans Kolla gamla sér að frisbídisknum - hinni aðaliðju Kolbeina - og köstuðu honum af listfengi miklu. Gerðust svo leiðir á þeim leik og ákváðu þá að klífa fjall (sem örugglega heitir Hlíðar-eitthvað). Eftir mikið puð og samkveður á Fjallgöngu Tómasar Guðmundssonar (þar sem Kolbeinn Bjarki kunni nördalega mikið af kvæðinu) náðu Kolbeinar hraktir og kaldir og þreyttir á tind bjargsins og neyddust til þess að kneyfa örlítinn ölsopa enda loftið orðið ákaflega þunnt svona í 300 metra hæð og mjög hættulegt að verða fyrir vökvatapi.
Niður aftur komnir gúffuðu Kolbeinar í sig ýmsum þjóðlegum krásum á borð við harðfisk, flatkökur (ekki flatbrauð!), hangikjöt, hangipulsu og síðast en ekki síst - buggles. Svo tók við önnur frisbísessjón sem fljótlega breyttist í æstan leik og nokkuð harðskeyttan þegar að einn var settur í miðju til að ná disknum af hinum og var þeim hinum sama nokkuð í sjálfsvald sett hvaða brögðum hann beitti. Niðurstaða leiksins var sú að Orri gekk frá velli með grunað rifbeinsbrot og Kobeinn Sigurður hrundi í hraungjótu og rispaðist svo á fótleggjum að á tímabili var talað um að best væri ef til vill að sníða fótinn af. En ,,þetta er bara smá skeina" sagði Kolbeinn Sigurður, hreystin uppmáluð, og lét það ekki á sig fá þó að hægri fótur hans lafði einungis á á örfáum sinum og taugaendum. Hann er hraustur maður, hann Kolbeinn Sigurður. Hraustasti Kolbeinninn af öllum, segja sumir.
Fljótlega að þessu loknu tóku Kolbeinar á sig náðir. Daginn eftir var áfram reynt að fanga fiskinn en skemmst er frá því að segja að ekkert gekk utan þess að Kolbeinn Bjarki var kominn með vænan fisk á sem annað hvort var eitt pund eða tuttugu (bara man það ekki) en missti. Síðdegis pökkuðu Kolbeinar saman öllu sínu og nú var ferðinni heitið í Djúpavatn.
Kolbeinar keyrðu góðan spöl á malbiki eftir Reykjanesinu suðvestanverðu í leit sinni að afleggjara Djúpavatn þegar að þeir loksins fundu stiku sem vísaði í rétta átt. Þar stóð að einungis tólf kílómetrar væru á áfangastað. Þessir tólf kílómetrar urðu þó að heilum klukkutíma á vegi sem ekki var hægt að aka á yfir tólf kílómetra hraða. Þar bar annars helst til tíðinda á þessum vegkafla að Kolbeinn Bjarki steig út úr bílnum fimm sinnum til þess að kasta af sér vatni og ávallt var bunan á við heilan bola. Furðuðu aðrir Kolbeinar sig á því hversu ógurlegt magn af vatni annars smávaxinn líkami Kolbeins Bjarka hafði að geyma. Sú niðurstaða fékkst að Kolbeinn Bjarki væri agúrka en ekki maður - með 95% líkama síns í formi vatns í stað eðlilegra 70%.
Þegar áfangastað var náð blasti við paradís: DJÚPAVATN! Um leið og vatnið blasti við í sínu djúpa dalverpi og ekki síður þegar komið var upp að kofanum sjálfum, sem fremur var sem höll, svo ekki sé talað um konunglega grillaðstöðuna og fallega frisbíblettinn fyrir framan tún þá ráku Kolbeinar upp húrrahróp og brustu síðan í grát og sögðu einn við annan: Hér vil ég una æfi minnar daga alla, sem Guð mér sendir.
Orri gekk í að hlaða kolum á grillið og kveikja upp í, enda Kolbeinar orðnir sársoltnir, en aðrir báru inn dót. Síðan tóku Kolbeinar til við að kasta og fljótlega kom á hjá veiðikóngi Kolbeins, Kolbeini Sölva, pínulítill fiskur - ömurlega lítill að vísu en vissi á gott. Kolbeinar grilluðu svo og kjömmsuðu á kjötmeti og kartöbblum og kneifuðu mjöð og lögðu Brennsa út í vatn til kælingar. Síðan smeygðu þeir Kolbeinar Bjarki, Sölvi og Sigurður sér í vöðlusmokka sína og héldu niður að vatni. Lítið gerðist framan af annað en það að pínulitlir fiskar héldu áfram að koma á land öðru hvoru. Kolbeinar skeyttu lítið um það.
Héldu síðan meðfram bakkanum og veiddu áfram en Kolbeinn Aðalsteinn og heiðursgesturinn Orri hvíldu sig hins vegar inni í skála. Hámarki náði veiðikvöldið þegar að Kolbeinn Sigurður fékk að reyna flugustöng Kolbeins Sölva með þeim mikla árangri að brátt var vænn urriði á. Kolbeinn Sigurður stirðnaði allur til holdsins og tók vel á. En urriðinn hafði að lokum betur og slapp og eftir sat Kolbeinn Sigurður, sár maður og grét í gaupnir sér en var huggaður af Kolbeinum Bjarka og Sölva.
Það bar síðan næst til tíðinda að það sást úr fjarlægð til túristaóberma tveggja sniglast í kringum veiðiskálann góða. Blótuðu þeir þrír Kolbeinar sem við veiði voru þessu hyski í sand og ösku sem komið var til þess að skemma helgi Kolbeinsferðar. Endaði með því að Kolbeinn Sölvi hrópaði hátt og snjallt svo ómaði um dalinn: ,,AUF WIEDERSEHEN!" Kveðjan nýttist einstaklega vel, sérstaklega þegar Kolbeinar komust að því að viðkomandi voru Frakkar. Og til að bæta nú gráu ofan á svart þá birtist allt í einu við vatnið grindvískt hvíthyski sem vildi fá að kasta. Sem betur fer hélt það fljótt sína leið en frönsku túrístasníkjudýrin létu ekki segjast og í frekju sinni og ýtni slógu þau upp tjaldi rétt við skála Kolbeins og létu ekkert á sig fá þó að Kolbeinar reyndu að fæla þau í burt með því að spila Villa Vill og annað gott stöff á góðu blasti.
Við tók kvöldvaka Kolbeins þar sem meðal annars var farið í leikinn: Nefnið einhverja kvikmynd. Þrátt fyrir fremur einfaldar og, að því er virðist, auðveldar reglur leiksins - að nefna bara einhverja kvikmynd - vafðist þessi kúnst fyrir mörgum Kolbeina enda Kolbeinar einkum veiðimenn en ekki einhverjir bíógláparar. Til mikilla tíðinda dró þó um miðja nótt þegar að Kolbeinn Sölvi birtist allt í einu utan úr buskanum, sæll á svip, með vænan urriða í höndunum. Sá hafði orðið fyrir ,,letingja" Kolbeins Sölva sem legið hafði úti í vatninu meðan að kvöldvakan fór fram. Gladdi þetta geð Kolbeina allra sem fóru með góð fyrirheit í háttinn.
Daginn eftir hélt veiðimennska áfram og í gríð og erg var beitt sömu taktík og gefist hafði svo undurvel nóttina áður, beitt var og kastað svo langt og látið liggja. Á meðan snæddu Kolbeinar mat, köstuðu frisbí, hlustuðu á Villa Vill og höfðu það almennt séð náðugt. Þetta skilaði þeim stórkostlega árangri að tveir vænir urriðar til viðbótar bárust á land - annan þeirra dró Kolbeinn Sigurður en hinn Kolbeinn Sölvi. Kolbeinn sveif á skýi alsælu og festi Djúpavatn enn betur í sessi en fyrr sem eilífðarveiðistað Kolbeina héðan í frá.
Þrátt fyrir nokkuð af köstum til viðbótar var ekki meira að fá að þessu sinni enda nóg komið - fengsælasta Kolbeinsferð hingað til var að enda komin. Kolbeinar pökkuðu saman og héldu syngjandi í bæinn, glaðir en meyrir yfir undrum náttúrunnar. Og Guðs. Og Kolbeins - sem ER ekkert gamall!
PS. Orð þessi eru öll tileinkuð honum Kolbeini Hirti sem nú hefur ákveðið að hætta mastersnámi í útlöndum til að þurfa aldrei aftur að upplifa þann ósóma að vera staddur í útlöndum ljótum þegar að Kolbeinsferð ber að garði. Menn sleppa ekki Kolbeinsferð án þess að sjá eftir því. Neeejjj-sko!